Takk fyrir samtalið

Ég vil þakka íbúum Þorlákshafnar og Ölfuss fyrir uppbyggilegt og umfram allt málefnalegt samtal á íbúafundinum í gær. Það sem einkenndi fundinn var upplýsingaleit og góðar spurningar sem ég vona að ég hafi getað svarað skilmerkilega til að gefa skýra mynd af þeim valkostum sem þið standið frammi fyrir.

Undirbúningurinn verkefnisins hefur nú staðið í nokkur ár og allan þann tíma höfum við lagt okkur fram um að eiga í góðum samskiptum við ykkur og bæjarstjórn. Þótt að okkur hafi þótt miður hvernig umræðan hefur á köflum verið hafa samskiptin heilt yfir verið góð og skilað breytingum á verkefnum sem hafa orðið til bóta. Fyrirhuguð staðsetning vinnslunnar er t.d. fimm kílómetra fyrir utan bæinn, innan um aðra umfangsmikla atvinnustarfsemi, en ekki við bæjarmörkin eins og í upphafi, og áætlanir um landflutning efniviðs hafa minnkað um 70% frá því sem áður var. Er þetta til marks um það að samtal okkar hafa borið árangur og bætt verkefnið.

Ákvörðunin sem þið standið frammi fyrir er ekki svarthvít. Það eru ótvíræðir kostir og jákvæð áhrif fyrir samfélagið sem fylgja starfseminni verði hún að veruleika, eins og 300-500 milljónir í tekjur bæjarsjóðs á ári hverju og á annað hundrað fjölbreytt störf – en við höfum aldrei vikið okkar undan því að ræða líka ókostina sem að mínum dómi eru um 5% aukning á umferð um Þrengslaveg og hæð bygginganna sem skilgreind er í deiluskipulaginu sem kosið er um.

Á endanum er ákvörðunin í ykkar höndum. Ég sagði það á fundinum í gær og ég vil árétta það, að ef af atvinnustarfsemi okkar hér í Þorlákshöfn verður munum við leggja metnað okkar í að gera vel, hlusta á raddir íbúa og vinna þannig að sómi og jákvæði áhrif séu af fyrir alla aðila, íbúa, sveitarfélag og aðra atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu.

Við verðum áfram til staðar til að svara spurningum og ræða málin. Ykkur er velkomið að hafa samband við mig til dæmis með skilaboðum í gegnum Facebook eða með tölvupósti.

Virðingarfyllst,

Þorsteinn Víglundsson

Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar má m.a. nálgast upplýsingar hér:

https://www.olfus.is/is/frettir/uttekt-cowi-eflu-og-det-norske-veritas-a-rykmengun-havadamengun-titringsmengun-og-ahaettumati-hafnar

https://heidelberg.is/spurt-og-svarad-um-mobergsvinnslu-heidelberg/

Þessi vefsíða notar vafrakökur.