Íbúafundur fer fram þrátt fyrir frestun kosningar
Heidelberg á Íslandi vill taka fram að fyrirhugaður íbúafundur þann 21. maí nk. mun fara fram á settum tíma þrátt fyrir að íbúakosningu sem fyrirhuguð var þann 1. júní hafi verið frestað af hálfu bæjaryfirvalda.
Á fundinum verður farið heildstætt yfir endanleg drög að áformum félagsins um móbergsvinnslu í grennd við Þorlákshöfn. Hönnunardrög að verksmiðjunni verða kynnt ásamt skipulagstillögu vegna lóðar Heidelberg sem hefur fengið úthlutað auk kynningar á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum í sveitarfélaginu. Auk þess gefst gestum færi á að ræða þær athugasemdir sem fram hafa komið síðustu daga auk annarra spurninga sem kunna að kvikna.
Heidelberg hvetur öll til að mæta og kynna sér vel fyrirhugaðar tillögur. Ekki liggur fyrir hvenær íbúakosning verður haldin en fyrirtækið mun eftir sem áður vinna áfram að því að byggja upp starfsemi sína í góðu samtali við bæjaryfirvöld, íbúa og atvinnurekendur á svæðinu.
Fundargögn og kynningar verða birtar á vef Heidelberg í kjölfar fundarins en fyrirtækið vekur ennfremur athygli á að greinargóðar upplýsingar um verkefnið auk svara við helstu spurningum má finna á heidelberg.is