Skipulagsstofnun skilar áliti vegna umhverfismats

Skipulagsstofnun hefur skilað áliti sínu um umhverfismatsskýrslu vegna fyrirhugaðrar mölunarverksmiðju Heidelberg í Ölfusi. Heidelberg á Íslandi lagði fram umhverfismatsskýrsluna í október síðastliðnum en hún var svo auglýst í desember. Skýrslan var til kynningar í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar auk þess sem stofnunin leitaði álits hjá ýmsum aðilum.

Umhverfismatsskýrslan uppfyllir að mati stofnunarinnar öll skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Stofnunin setur engar sérstakar kvaðir vegna skýrslunnar en setur fram nokkrar athugasemdir vegna verkefnisins og annarrar fyrirhugaðrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu, sem Heidelberg mun taka til álita í samvinnu við aðra aðila eftir kostum.

Veigamestu atriðin í áliti sínu telur Skipulagsstofnun vera sjónræn áhrif fyrirhugaðs iðnaðarsvæðis vestan Þorlákshafnar en tiltekur að fyrirhuguð verksmiðja verði þar líklega jafnoki annarra fyrirtækja sem munu starfa á svæðinu. Stofnunin nefnir í álitinu mögulegar leiðir til að milda áhrif, t.a.m. með litavali, hæðarsetningu og sameiginlegri landslagshönnun.

Aðrir þættir sem eru nefndir eru m.a. mikilvægi þess að tryggt verði gott ástand vega vestan Þorlákshafnar vegna aukinna umsvifa fyrirtækjanna á svæðinu og að vöktuð verði gæði lífríkis við strandlengjuna þótt starfsemi verksmiðjunnar skili ekki frá sér úrgangi sem hafi áhrif á nærliggjandi lífríki.

Þá lýsir stofnunin áhyggjum af stöðu grunnvatns á svæðinu. Áætlað er að verksmiðjan muni nýta um 5% heildarmagns grunnvatns á atvinnusvæðinu en til skoðunar er að verksmiðjan endurnýti ferskvatn frá nálægum fiskeldisstöðvum, sem Skipulagsstofnun telur mjög jákvætt. Til stendur að starfrækja sameiginlega vöktun aðila á vatnsnotkun, en álit Skipulagsstofnunar kallar einmitt eftir slíkri vöktun.

Lesa má allt álit Skipulagsstofnunar hér:
Álit

Þessi vefsíða notar vafrakökur.