Spurt og svarað um móbergsvinnslu Heidelberg
Í tilefni af því að framundan er íbúakosning um fyrirhugaða starfsemi Heidelberg á iðnaðarsvæðinu fyrir utan Þorlákshöfn langar mig að fara í stuttu máli yfir helstu þætti sem til umræðu hafa verið.
Hvers konar starfsemi verður þetta?
Fyrirhuguð framleiðsla Heidelberg í Þorlákshöfn felst í þurrkun og mölun á íslensku móbergi til notkunar sem íauka í sementi. Móberg á sér langa sögu í sementsframleiðslu, allt aftur til tíma Rómarveldis en einnig var þetta efni notað með góðum árangri af Sementsverksmiðjunni hér á landi. Tilgangur þessarar íblöndunar er lækkun kolefnisspors sementsins. Notkun móbergsins mun því hafa mjög jákvæð áhrif á loftslagið. Áætlað er að árleg minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa nemi 1-1,5 milljónum tonna, eða sem samsvarar losun alls íslenska bílaflotans.
Hver eru efnahagsleg áhrif af starfseminni?
Beinar tekjur sveitarfélagsins af starfseminni eru áætlaðar um 300-500 milljónir króna á ári í formi fasteignagjalda, gatnagerðargjalda og útsvars en það eru nærri 20% af tekjum sveitarfélagsins árið 2023. Fjárfestingin mun einnig skila miklum efnahagslegum ávinningi fyrir samfélagið á uppbyggingartímanum, m.a. í formi aðkeyptrar vinnu. Heildarfjárfesting áætluð um 90 milljarðar króna, þar af um 12 milljarðar í nýrri höfn sem sveitarfélagið mun eignast þegar stofnkostnaður hennar hefur verið greiddur upp.
Hvað fylgja mörg störf?
Starfseminni fylgja 80 vel launuð störf og 80 afleidd störf, þ.e. störf sem metið er að verði til út frá starfseminni, samtals 160 störf. Um er að ræða fjölbreytt störf, bæði almenn og sérfræðistörf, s.s. fyrir rafvirkja, vélfræðinga, verkfræðinga, tæknimenntað fólk og starfsfólk í rekstri tækjabúnaðar auk bílstjóra og áhafna á dæluskip.
Er mengun af starfseminni?
Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum starfseminnar á loftgæði, mögulega rykmengun, hljóðmengun og titring. Niðurstöður þeirra eru að engin teljandi ryk-, hljóð- eða lyktkarmengun sé af starfseminni. Má því til stuðnings m.a. benda á niðurstöður álits Skipulagsstofnunar á umhverfismati verksmiðjunnar þar sem þar sem megin áhrif á umhverfi eru talin vera ásýnd mannvirkja. Auk þess muni starfsemi þeirra fyrirtækja sem fyrirhuguð er á svæðinu í heild valda samlegðaráhrifum á grunnvatnsnotkun sem og umferð að og frá svæðinu. Kolefnisspor verksmiðjunnar verður nær eingöngu vegna aksturs og skipaflutninga.
Hvaða áhrif hefur starfsemin á umferð og vegakerfið?
Eftir að breytingar voru gerðar á efnistöku verður umferðin aðeins 1/6 af því sem upphaflega var áætlað. Áæltuð umferðaraukning á vegkaflanum frá námunni í Þrengslum og að fyrsta hringtorgi við Þorlákshöfn er um 5%. Það er svipuð umferð og er frá námunni í Lambafelli og suður til Reykjavíkur. Frá verksmiðjunni verður allt efni lestað beint á skip svo ekki er um neina efnisflutninga að ræða frá verksmiðjunni. Til að viðhalda umferðarflæði og auka umferðaröryggi verða nýjar að- og fráreinar gerðar, bæði við verksmiðjuna og námuna. Heidelberg vinnur að því í samstarfi við Vegagerðina og sveitarfélagið að skilgreina nauðsynlegar bætur á þessum þáttum.
Hvernig er ásýndin?
Verkefni sem þetta þarf þó nokkuð landrými. Með nýrri staðsetningu fékkst aukið pláss og þar með var hægt að lækka byggingarnar umtalsvert. Byggingarnar verða lítt sjáanlegar frá bænum nema útjaðri hans, vestanmegin, en sjá má myndir af fyrirhuguðu útliti á heidelberg.is. Áhersla verður lögð á umhverfishönnun og að byggingar falli sem best að umhverfi sínu. Í því samhengi er vert að hafa í huga að önnur og áberandi mannvirki eru tekin að rísa á svæðinu auk þess sem bæjarstjórn Ölfuss samþykkti nýlega samhljóða auglýsingu deiliskipulags við Laxabraut, á milli lóðar Heidelberg og Þorlákshafnar, þar sem áformað er að reisa allt að 55 metra há mannvirki. Áhrif vegna ásýndar munu því ekki einskorðast við framkvæmdir Heidelberg á svæðinu.
Hefur framleiðslan áhrif á lífríki í sjónum við Þorlákshöfn?
Fram kemur í umhverfismati Skipulagsstofnunar að áhrif vegna uppbyggingar og reksturs verksmiðjunnar séu talin hafa óveruleg áhrif á lífríki í sjó og fjöru.
Hefur uppdæling efnis við Landeyjarhöfn neikvæð áhrif á fiskistofna?
Umhverfismat á fyrirhugaðri vinnslu stendur yfir. Ljóst er að slík vinnsla fengi ekki tilskilin leyfi ef talið væri að hún hefði mikil og neikvæð áhrif á hrygningarstöðvar. Heidelberg telur engar líkur á því og bendir í því samhengi á að heimilt vinnslusvæði yrði samtals 28 km2 en árlega væri aðeins unnið á um 0,5 km2 svæði (það er 0,5 km x 0,5 km að stærð) en til samanburðar eru hrygningarsvæðið undan suðurströnd landsins um 16.000 km2 að stærð. Þetta þýðir að árlegt vinnslusvæði er aðeins um 0,003% af hrygningarsvæðinu.
Hefur starfsemin áhrif á brimbrettaiðkun við Þorlákshöfn?
Aldan í Þorlákshöfn sem þykir afbragðsgóð brimbrettaalda hefur stundum verið nefnd í tengslum við starfsemi Heidelberg og þá þannig að starfsemin muni hafa áhrif á hana. Það er hins vegar engin tenging er á Öldunnar í Þorlákshöfn og starfsemi Heidelberg. Brimbrettasvæðið er sem kunnugt er við núverandi hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn en fyrirhugð höfn Heidelberg er 5 kílómetrum vestar og auk þess handan við Hafnarnesið.
Hvað er Heidelberg?
Heidelberg á Íslandi er íslenskt félag sem mun eiga og reka verksmiðjuna í Þorlákshöfn. Höfuðstöðvar félagsins verða í Þorlákshöfn. Félagið er í eigu Heidelberg Materials sem er alþjóðlegt fyrirtæki. Heidelberg Materials er einn stærsti framleiðandi byggingarefna í heiminum og eru vörur þeirra notaðar við byggingu húsa, vega og annarra mannvirkja, m.a. á Íslandi. Fyrirtækið hefur þegar sterk tengsl við Ísland en það er meirihlutaeigandi í Hornsteini sem á og rekur BM Vallá, Sementsverksmiðjuna og Björgun.
Að lokum
Að lokum er tilefni til að árétta það að starfsemi sem þessi er háð margskonar leyfum frá opinberum aðilum sem hver er fagaðila á sínu sviði. Ef raunverulegar hættur væru til staðar eða vafi léki á áhrifum starfseminnar færu slík opinber leyfi aldrei í gegn hjá þeim fagaðilum sem við treystum til þess að fara með þetta vald. Jafnframt ber árétta það augljósa sem er að Heidelberg mun að sjálfsögðu haga allri sinni starfsemi í samræmi við lög, reglur og þau skilyrði sem sett verða sett fyrir starfseminni.
Ég vil hvetja ykkur öll til að kynna ykkur verkefnið vel og taka þátt í íbúakosningunni sem fara mun fram frá 25. nóvember til 9. desember næstkomandi.
Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg á Íslandi
Fréttin hefur einnig verið send og birt á hafnarfrettir.is: https://hafnarfrettir.is/2024/11/19/spurt-og-svarad-um-mobergsvinnslu-heidelberg/
– Greinin hefur verið uppfærð.