Mat KPMG á efnahagslegum áhrifum

Ráðgjafafyrirtækið KPMG gefur lokið mati á efnahagslegum áhrifum fyrirhugaðrar mölunarverksmiðju Heidelberg Materials í Þorlákshöfn. Heidelberg Materials bað starfsfólk KPMG að framkvæma skoðun sem beindist fyrst og fremst að helstu áhrifaþáttum, störfum sem fylgja starfseminni og áætluðum tekjum sveitarfélagsins.[1] Áætlaðar heildartekjur sveitarfélagsins geta samkvæmt matinu numið 488 – 788 milljónum króna á ári.

 Áætlanir gera ráð fyrir að 60 bein störf skapist strax í upphafi en að þeim fjölgi um 10 að þremur árum liðnum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru meðal-mánaðarlaun íbúa í sveitarfélaginu í dag um 560.000 kr. en áætluð meðallaun við vinnsluna eru á bilinu 1-1,2 milljónir kr. á mánuði.

 Þá gera áætlanir ráð fyrir að fjöldi afleiddra starfa verði yfir 50 talsins og jafnframt að meðallaun verði nokkuð hærri en meðallaun í sveitarfélaginu, eða u.þ.b. 750.000 kr. á mánuði. Mögulegar útsvarstekjur sveitarfélagsins velta einna helst á því hversu hátt hlutfall starfsfólksins muni búa í sveitarfélaginu.

 Varfærnislegar áætlanir gera ráð fyrir að þriðjungur þess hóps muni búa á svæðinu en sú uppbygging sem hefur verið í húsnæðismálum á svæðinu mun styðja og auðvelda flutninga á svæðið og má því ætla að hlutfallið verði umtalsvert hærra. Gera niðurstöður kannana ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins af beinum og óbeinum störfum verði á bilinu 58-115 milljónir kr. á ári.

 Fasteignagjöld eru reiknuð út frá fasteignamati sem aftur er að hluta til reiknað út frá stærð bygginga. Gera áætlanir þar ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins af þessum byggingum verði 103-126 milljónir kr. á ári.

 Þá er enn ótalin stærsta tekjulindin, hafnargjöldin. Tekjuspá varðandi hafnargjöld, byggð á áætlunum félagsins um útflutt magn og gildandi verðskrá Þorlákshafnar, gerir ráð fyrir tekjum á bilinu 329-548 milljónir kr. á ári.

 Þegar allt er tekið saman gera áætlanir KPMG ráð fyrir að heildartekjur sveitarfélagsins af framangreindum þáttum geti verið 488-788 milljónir kr. á ári að núvirði. Að auki kemur fram að leiða megi líkur að því að verkefnið hafi önnur jákvæð efnahagsleg áhrif á sveitarfélagið. Nefna má sem dæmi framkvæmdir sem ráðast þarf í til að styrkja orkuflutning á svæðið. Þar til viðbótar er mikilvægt að minnast á loftslagsáhrif verkefnisins, sem erfitt er að meta til fjár. Meginmarkmið verkefnisins sjálfs snýr að því að draga verulega úr kolefnisspori sementsframleiðslu, sem í dag er stór útblástursvaldur koltvísýrings á heimsvísu

 

[1] Greining KPMG takmarkast við skoðun á efnahagslegum áhrifum á sveitarfélagið Ölfus og áætluðu skattspori starfseminnar. Byggt er á forsendum og áætlunum frá stjórnendum félagsins ásamt opinberum gögnum. KPMG hefur haldið vinnunni einfaldri og því ekki útilokað að bæta megi við gögnum eða öðrum upplýsingum tengdum verkefninu. Ekki hefur verið framkvæmd sérstök áreiðanleikakönnun á þeim gögnum sem stuðst er við og af þeim sökum getur KPMG ekki ábyrgst áreiðanleika þeirra upplýsinga sem hér koma fram né að þær séu tæmandi.

Sækja skýrslu KPMG

Þessi vefsíða notar vafrakökur.