Ný staðsetning meðal þess sem er til skoðunar

Heidelberg Materials hefur nú til skoðunar hvort mögulegt og fýsilegt sé að reisa mölunarverksmiðju sem vinnur íslenskt móberg til sementsframleiðslu á athafnasvæði 5 km vestan við Þorlákshöfn.

Fyrirtækið hefur þegar fengið úthlutað lóð á iðnaðarsvæði austanmegin í bænum og hafa fyrirætlanir fyrirtækisins hingað til eingöngu miðað að því að verksmiðjan rísi þar. Skipulagning verksmiðjunnar og hönnun er enn á fyrstu stigum og hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin um byggingu eða staðsetningu verksmiðjunnar.

Eitt af því sem fyrirtækið hefur nú til skoðunar er hvort ný staðsetning 5 km vestan við þéttbýliskjarna Þorlákshafnar komi til greina en henni myndi einnig fylgja uppbygging nýrrar hafnaraðstöðu.

Ný staðsetning kom upphaflega til skoðunar eftir athugasemdir frá nærsamfélaginu. Áhyggjuraddir hafa heyrst meðal íbúa vegna nálægðar við byggð og vegna hæðar bygginganna. Heidelberg hefur haft til skoðunar ýmsa kosti til að koma til móts við þær raddir. Auk fjarlægðar frá þéttbýliskjarna gæti aukið landrými á athafnasvæði verksmiðjunnar einnig skapað fleiri valkosti varðandi hæð og umfang bygginga. Þá er einnig til skoðunar hvort mögulegt sé að nota sjávarsand við framleiðsluna og draga með því úr þörf fyrir flutning frá námum í Þrengslum.

Ný staðsetning er sömuleiðis innan græns iðnkjarna Ölfuss sem nú er í þróun og ýmsir möguleikar á samlegð með öðrum iðnaði. Þar má nefna samnýtingu hafnaraðstöðu og endurnýtingu auðlindastrauma á borð við varma. Rétt er að taka fram að líkt og með staðsetningu er slíkt aðeins á fyrstu stigum skoðunar.

Áformuð verksmiðja er hluti af sjálfbærnivegferð Heidelberg Materials en fyrirhugað er að vinna móberg úr námum sem þegar hafa verið í notkun eða eru skilgreindar til nýtingar. Með notkun móbergs í sementsframleiðslu verður hægt að draga úr losun sem nemur um 1,3 milljón tonnum af koltvísýringi árlega.

Endanleg staðsetning verksmiðjunnar er ekki höfuðatriði, en ein af grundvallarforsendum er þó að verkefnið sé efnahagslega sjálfbært. Áfram verður unnið að mati á kostum til uppbyggingar á mölunarverksmiðjunni og verða þeir kynntir nánar þegar upplýsingar liggja fyrir.

Þessi vefsíða notar vafrakökur.